top of page

Sál var heittrúaður Gyðingur og kunni ekki að meta hinn nýja boðskap sem fylgjendur Jesú fluttu. Þegar hann hitti Jesú breyttist líf hans á örskotsstund. Sál varð Páll. Hann varð einn af þeim sem hann hafði ekki þolað áður. Aðrir kristnir tóku honum ekki beint fagnandi, þau voru enn hrædd við hann. Það var hins vegar einn maður, Barnabas, sem trúði því besta upp á Pál og hleypti honum inn í hópinn. Ekki leið á löngu þar til Páll þurfti sjálfur að flýja fólk sem ofsótti kristna. Sagan getur kennt okkur svo margt. Hún kennir okkur að Guð getur gert óvini okkar að vinum, hún kennir okkur að trúa því besta upp á fólk og hún kennir okkur að Guð gefur öllum annað tækifæri, þrátt fyrir fortíð okkar og mistök.

Spurningar til að skapa umræður
Yngri börnin

Hvern hitti Páll á leiðinni til Damaskus? Hann hitti Jesú (sá sem Páll ofsótti).

Hvað var Sál blindur lengi? Í þrjá daga. Þá fékk hann sjónina aftur og fylltist heilögum anda.

Hvað hét Páll áður en hann skipti um nafn? Sál.

Eldri börnin

Settu þig í aðstæður Sáls og hvað það var sem gerðist á leiðinni til Damaskus.

Sál er frábær áminning um að Guð getur notað fortíð okkar sem frábæran vitnisburð til að ná til annara. Með hvaða hætti getur Guð notað þína sögu til að segja öðrum frá Jesú?

Páll var óhræddur við að predika og breiða út fagnaðarerindið um Jesú. Hann óttaðist fólk ekkert. Hvernig getur þú verið líkari Páli?

Biðjið - hægt með hermibæn

Góði Guð.
Takk fyrir að þú fyrirgefur syndir mínar og að þú gefur mér alltaf annað tækifæri. Hjálpaðu mér að fyrirgefa öðrum eins og þú hefur fyrirgefið mér.
Í Jesú nafni,
Amen.

Sagan er byggð á

Postulasagan 9:1-31

Tengdar sögur til að segja frá
  • Stefán grýttur

  • Páll og Sílas í fangelsi

bottom of page